waterfalls-5763672.jpg

Ávarp

Bjarni Þór Þórólfsson

Sjálfbærni og langtímahugsun

Í rekstri Búseta er sífellt aukin áhersla á umhverfisvitund og sjálfbærni. Nýbyggingar Búseta vekja athygli fyrir hönnun, vandað efnisval og ekki síst áhugaverðar staðsetningar. Áhugi félagsmanna lætur því ekki á sér standa þegar sala á nýbyggingaverkefnum fer fram. Á árinu 2021 voru samtals 98 íbúðir afhentar nýjum íbúum í Árskógum 5 og 7 og Beimabryggju 42.

Nútímaáherslur í rekstri og húsbyggingum

Á síðustu árum hefur Búseti staðið fyrir umtalsverðri fjölgun fasteigna með húsbyggingum á höfuðborgarsvæðinu. Á síðasta ári afhenti félagið nýjum íbúum 72 íbúðir við Árskóga 5 og 7 í Mjódd og 26 íbúðir við Beimabryggju 42 í Bryggjuhverfi Reykjavíkur. Nú stendur yfir bygging 20 íbúða að Maríugötu í Urriðaholti í Garðabæ og styttist í að framkvæmdir hefjist á nýbyggingum félagsins í Reykjavík við Hallgerðargötu og Eirhöfða.

Búseti leggur áherslu á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma með vel byggðum og fallega hönnuðum húsum.


Síðustu tveir áratugir á húsnæðismarkaði hafa á köflum verið nokkuð öfgakenndir. Eftir afar lágt verð í framhaldi af fjármálakreppunni tóku við hækkanir á íbúðaverði samhliða miklum launahækkunum, lægri vöxtum og kröftugum efnahagsbata. Um mitt ár 2017 hægði á hækkunum og hóflegar hækkanir stóðu yfir allt fram á árið 2020. Hröð breyting varð á þegar heimsfaraldurinn skall á af fullum þunga á fyrri hluta ársins 2020. Þegar fasteignamarkaðurinn þróast eins og sést hefur á síðustu misserum myndast einnig aukin eftirspurn eftir búseturéttum og hefur félagið vart undan að fjölga íbúðum í safni félagsins til að svara ákalli félagsmanna. Enda sækja gjarnan tugir um hverja íbúð.

Búseti leikur mikilvægt hlutverk með því bjóða upp svokallaða þriðju leið þegar kemur að kostum á fasteignamarkaði, leið sem felur í sér raunverulegt húsnæðisöryggi og langtímahugsun. Búseti leggur áherslu á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma með vel byggðum og fallega hönnuðum húsum. Fátt skiptir meira máli en að búa í vönduðu húsnæði, þar sem er að finna góð loft- og hljóðgæði, hæfilegt birtuflæði o.s.frv. Hvernig við sköpum okkur heimili er með því mikilvægara sem við gerum. Fjölbreytta flóru fasteigna er að finna á vegum Búseta í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eftir tæplega fjörutíu ára starfsemi.

Fyrstu kaupendur og samfélagsábyrgð

Á síðasta ári voru í heild seldir hjá félaginu 213 búseturéttir, af þeim 91 í nýjum íbúðum og 122 í eldri íbúðum. Í nýbyggingarverkefni Búseta í Árskógum endurtók félagið það sem fyrstu kaupendur hafa kunnað að meta. Í verkefninu er nefnilega að finna minni íbúðir á hagkvæmum kjörum sem höfða til þess hóps, líkt og í nýbyggingarverkefni Búseta við Keilugranda.

Sjálfbærni og umhverfisvitund ásamt góðum stjórnarháttum eru mikilvægir þættir í starfsemi Búseta. Til að varpa ljósi á þessa þætti í starfsemi félagsins á félagið samstarf við fyrirtækið Reitun sem metur sjálfbærnistöðu félaga út frá áhættu, stjórnun og árangri hvað varðar umhverfis- félags- og stjórnarhætti (UFS). Reitun hefur framkvæmt UFS-möt á öllum skráðum útgefendum skuldabréfa í íslenskri Kauphöll síðan árið 2020. Niðurstaða slíkra úttekta er meðal þess sem horft er til við skuldabréfaútboð. Búseti hefur viðhaldið góðri einkunn í niðurstöðum Reitunar (74 stig) sem er vel fyrir ofan meðaltal þegar niðurstaðan er borin saman við aðra útgefendur skuldabréfa.

Samlegðaráhrif er lykilhugtak í öllum rekstri Búseta og er auðlindum ráðstafað af skynsemi með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Líkt og árin á undan hækkaði fasteignaverð talsvert á árinu 2021. Bókfært virði eignasafnsins eykst því, sem leiðir til þess að aukinn hagnaður birtist í bókum félagsins eins og árin á undan. Sem fyrr er rétt að minna á að þessi bókfærði hagnaður er fyrst og fremst tölur á blaði.

Búseti rekur vel skipaða deild eignaumsjónar og á gott samstarf við fjölbreyttan hóp verktaka. Þetta teymi hlúði vel að eignasafni Búseta á árinu 2021 og stóð félagið fyrir talsverðum endurbótum og viðhaldi á árinu. Samlegðaráhrif er lykilhugtak í öllum rekstri Búseta og er auðlindum ráðstafað af skynsemi með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Bjarni Þór Þórólfsson
framkvæmdastjóri